VETRARHÖRKUR
Án þess að átta sig á því hafði hún verið farin að leggja drög að nýju lífi. Og þrátt fyrir óttann um Braga hafði hún upplifað sig örugga. En það öryggi var nú fokið út í hafsauga. Þær voru komnar. Þær voru hér.
Enginn veit hversu margir lifðu af geimveruárásina sem gerð var á landið. Bergljót og pabbi hennar eru enn í Vestmannaeyjum og nú hefur heyrst lífsmark frá Braga bróður hennar ofan af landi. Spurningarnar eru óteljandi: Hvað vilja geimverurnar? Er hægt að sigrast á þeim? Verður lífið einhvern tíma venjulegt á ný?
Vetrarhörkur er seinni hluti sögunnar sem Hildur Knútsdóttir hóf í Vetrarfríi, æsispennandi bók sem naut mikilla vinsælda.
Vetrarhörkur hefur komið út í frönsku í þýðingu Jean-Christophe Salaün og á tékknesku í þýðingu Martinu Kašparová. Útgáfuréttur hefur verið seldur til Danmerkur og Makedóníu.
Verðlaun og viðurkenningar
Íslensku bókmenntaverðlaunin 2017 í flokki barna- og unglingabóka
Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana í flokki ungmennabóka
Tilnefning til Barnabókaverðlauna Reykjavíkur
Umsagnir
„Frábær hrollvekja! … Æsispennandi … Afar vel skrifuð bók og alveg hrikalega spennandi.“
Guðríður Haraldsdóttir / Vikan
„Satt best að segja er frásögnin alveg nógu ógnvekjandi fyrir en um tæplega miðja bók þurfti bókarýnir, sem sat einn og las seint um kvöld, að sækja sér sofandi smábarn og hafa sér við hlið til að þora að halda áfram að lesa … Hildur Knútsdóttir er flinkur penni og lætur vel að skrifa fantasíur …“
Helga Birgisdóttir / Hugrás
„Sagan í heild er mjög vel skrifuð, spennandi og ógnvekjandi … En auk þess að vera firnagóð hrollvekja er Vetrarhörkur líka beitt ádeila á firringu okkar nútímafólks og dofa gagnvart umheiminum. Hún deilir á sjálfselsku og einstaklingshyggju og vekur til umhugsunar um það hve auðvelt er að gleyma því sem mikilvægast er.“
María Bjarkadóttir / Bókmenntir.is