Þegar grindhoruð steingrá læða gerir sig heimakomna á hjúkrunarheimili tekur öldrunarlæknirinn Eva henni fagnandi. Hún veit að rannsóknir sýna að gæludýr hafa góð áhrif á vistmenn slíkra stofnana og berst fyrir því að kötturinn fái að vera um kyrrt. En fljótlega tekur hún eftir því að allir sem læðan Mandla tekur ástfóstri við látast skömmu síðar.
Getur verið að kötturinn geti spáð fyrir um andlát fólks? Og verður Mandla bústnari og sældarlegri í hvert sinn sem heimilismaður er fluttur í líkhúsið?
MANDLA
Stutt skáldsaga sem heldur lesandanum í heljargreipum
HRÍM
Ævintýraleg þroskasaga um ástir og örlög á annars konar Íslandi þar sem mannfólk deilir landinu með risavöxnum dýrum og lífsbaráttan er hörð.
Líf Jófríðar og annarra í skaranum hennar stjórnast af árstíðunum. Þau eyða sumrinu í Fellsskógi, haustinu á Húsavík og á veturna, þegar hrímsvelgirnir koma niður af hálendinu, þurfa þau að flýja út á ísinn á Mývatni. Hætturnar leynast við hvert fótmál en allt er samt í föstum skorðum – þar til líf Jófríðar umturnast. Hún þarf ekki bara að velja milli Suðra, myndarlega stráksins í Ljósavatnsskaranum, og æskuvinar síns, Bresa, heldur hvílir ábyrgðin á velferð skarans skyndilega á
hennar herðum.
Einnig fáanleg sem hljóðbók og rafbók
Hildur Knútsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1984. Hún skrifar bækur fyrir bæði börn og fullorðna sem og leikrit og smásögur. Hildur er einna helst þekkt fyrir furðusögur og uggvænlegar hrollvekjur. Þó hefur hún einnig skrifað bráðfyndnar bækur í félagi við Þórdísi Gísladóttur sem fjalla um krísur í lífi nútímaunglingsins og hafa þær notið mikilla vinsælda.