Leikrit


VETRARFRÍ

– Útvarpsleikrit

Vetrarfrí er framhaldsleikrit í átta þáttum eftir Hildi Knútsdóttur.

Vetrarfríið er loksins að byrja. Bergljót hlakkar til að fara í bekkjarpartý og Bragi bróðir hennar ætlar að gista hjá vini sínum. Foreldrarnir stefna á rómantíska sumarbústaðarferð. En allt breytist þegar furðuleg drepsótt brýst út. Eftir það hugsar enginn um neitt annað en að bjarga lífi sínu.

Tónlist: Úlfur Eldjárn. Hljóðvinnsla: Gísli Kjaran Kristjánsson. Leikstjóri: Sigurjón Kjartansson.

SKEPNAN

– Útvarpsleikrit

Framhaldsleikritið Skepnan er æsispennandi fjölskylduleikrit í fjórum þáttum. Leikritið var frumflutt í Útvarpsleikhúsinu á Rás 1 yfir páskana 2017.

Unglingarnir Halldóra og Bessi eru stödd í sumarbústað ásamt mæðrum sínum, þeim Dunnu og Ölfu, sem eru miklar vinkonur. Dunna og Alfa eru leiðinni á hagyrðingakvöld í sveitinni sem þau Halldóra og Bessi hafa lítinn áhuga á.

Þau verða því eftir í sumarbústaðnum og ákveða að gera podcast með draugasögum sem þau byrja að taka upp á símann hans Bessa, til að hafa ofan af fyrir sér. Þessar sagnatilraunir eru býsna hrollvekjandi en komast hinsvegar ekki í hálfkvisti við veruleikann sem vinirnir Halldóra og Bessi standa frammi fyrir áður en yfir lýkur þetta kvöld.

Umsagnir

„Ég vona að Hildur Knútsdóttir leggi aldrei óhugnaðinn á hilluna því fáum ef nokkrum íslenskum rithöfundum hefur tekist að hræða mig jafn listilega og henni í gegnum bækur sínar og nú síðast fjölskylduleikrit Útvarpsleikhússins á Rás 1 um páskana, Skepnan. Fyrir utan að vera einn af okkur bestu pennum hefur hún fullkomið vald á því að skapa óhugnað sem er í senn bæði yfirgengilegur og trúverðugur en líka hulinn einhverri dýpri merkingu. […] Skepnan stóð undir væntingum.“
Júlía Margrét Alexandersdóttir / Morgunblaðið

GESTIR

– Leikrit

Hálfsviðsettur leiklestur á Listahátíð í Reykjavík 2016 í leikstjórn Viðars Eggersstonar. Leikritið var unnið í höfundasmiðju Borgarleikhússins og Félags leikskálda- og handritshöfunda.