VETRARFRÍ

Það er síðasti dagur fyrir vetrarfríið. Bergljót hlakkar til að fara í tíundabekkjarpartý og Bragi bróðir hennar ætlar að gista hjá vini sínum. Foreldrarnir stefna á rómantíska sumarbústaðarferð. En allar áætlanir fara fyrir lítið þegar furðuleg plága brýst út. Eftir það hugsar enginn um neitt annað en að bjarga lífi sínu.

Vetrarfrí er hörkutryllir sem engin leið er að leggja frá sér fyrr en að lestri loknum. Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og hlaut Fjöruverðlaunin 2016. Í umsögn dómnefndar Fjöruverðlaunanna segir meðal annars: „Vetrarfrí er spennandi unglingabók með sterka samsvörun til nútímans og heimsmálanna. Bókin færir þær hörmungar sem fylgja lífi flóttamannsins nær unglingum og lesendum. En þó að sagan lýsi óhugnaði og blóðugu ofbeldi er mikill húmor í henni og því um leið líka stórskemmtileg.“

Vetrarfrí hefur komið út í frönsku í þýðingu Jean-Christophe Salaün og á tékknesku í þýðingu Martinu Kašparová. Útgáfuréttur hefur verið seldur til Danmerkur og Makedóníu.

Verðlaun og viðurkenningar

  • Heiðurslisti IBBY 2018.

  • Fjöruverðlaunin – Bókmenntaverðlaun kvenna 2016 fyrir bestu bók í flokki barna- og unglingabóka

  • Annað sæti í Bókmenntaverðlaunum starfsfólks bókaverslana í flokki ungmennabóka

  • Tilnefning til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barna- og unglingabóka

  • Tilnefning til Barnabókaverðlauna Reykjavík


Umsagnir

„Æðisleg hrollvekja.“
Egill Helgason / Kiljan

„Einkar vel skrifuð saga, ofbeldi í henni er skemmtilega blóðugt og hrottalegt, persónur margræðar og trúverðugar og hörmungarnar sem dynja yfir vel útfærðar, eins og óttalegur vökudraumur. Svo er bráðsnjall snúningur í lokin … sem fær mann til að skella upp úr. Mjög vel gert.“
Árni Matthíasson / Morgunblaðið

„Virkilega hressandi viðbót við flóru íslenskra unglingabókmennta … töfraraunsæisverk fyrir unglinga … fléttan er virkilega spennandi og vel útpæld.“
Halla Þórlaug Óskarsdóttir / Fréttablaðið

„Blóðug, hrollvekjandi og hrikalega spennandi bók sem maður leggur ekki svo glatt frá sér ólesna.“
Guðríður Haraldsdóttir / Vikan

„Bókin er skemmtileg og ritstíll Hildar og frásagnarmáti er áreynslulaus … vel skrifuð hrollvekja og þessi lesandi bíður í spenntur eftir framhaldinu.“
Tinna Eiríksdóttir / Sirkústjaldið

„… vel skrifuð og vel undirbyggð, andstæður milli hversdagsleika og þeirra undarlegu og hryllilegu aðstæðna sem myndast verða skarpar og hrista upp í lesandanum … spennandi og skilur margt eftir sig. Ekki bara hroll og hálfgerða ónotatilfinningu heldur raunverulegar spurningar sem er alls ekki auðvelt að svara.“
María Bjarkadóttir / Bókmenntir.is