SKÓGURINN

Allt líf Kríu hefur litast af hvarfi Gerðu ömmu hennar sem hún varð vitni að á unglingsaldri. Því hugsar hún sig ekki tvisvar um þegar dótturdóttur hennar bíða sömu örlög sjötíu og níu árum síðar og fórnar sér í hennar stað. Þá fær Kría loksins að sjá hvað leynist handan við dularfulla skápinn í risherberginu við Skólastræti og svör við spurningum sem hafa ásótt hana árum saman.

Skógurinn er lokabindi rómaðs þríleiks Hildar Knútsdóttur þar sem saman fer spennandi saga og ævintýralegt hugmyndaflug. Báðar fyrri bækurnar, Ljónið og Nornin, voru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og hlutu Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana, fyrir þá fyrri hlaut Hildur Barnabókaverðlaun Reykjavíkur.

Verðlaun og viðurkenningar

  • Tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna 2020

  • Tilnefnd til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar

  • Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókverslana í flokki ungmennabóka


Umsgnir

„Hildur Knútsdóttir er höfundur með óvenjulegt og ríkulegt ímyndunarafl og nær betri tökum á stílbrögðum og orðfimi með hverri bók. Þessi bók heldur lesanda vel við efnið og heimurinn sem hún skapar er sannferðugur og vel hugsaður.“
Brynhildur Björnsdóttir / Fréttablaðið

„Þetta er stórvirki!“
Þorgeir Tryggvason / Kiljan

„Hún teiknar upp þarna heim fyrir okkur, sem er svo flottur hjá henni og hann er svo filmískur.“
Sunna Dís Másdóttir / Kiljan

„SKÓGURINN er verðugur endahnútur á feikivelheppnaðan þríleik Hildar Knútsdóttur um Kríu og hennar fólk. … Og hvílík fantasía! Veröld skógarins er stórkostlega frumleg og fimlega smíðuð. … skýringin á gerðum hins dularfulla Davíðs/Jakobs óvænt og mögnuð. Fyrir utan hugmyndasprúðlið er svo fjallað af mjög svo skynsamlegu viti um vináttu, traust og ást. Frábær og snyrtilega hnýttur hnútur.“
Þorgeir Tryggvason bókmenntagagnrýnandi, Lesskýrsla, Facebook