MYRKRIÐ MILLI STJARNANNA

„Dyrnar á kofanum eru skakkar, lúin hurð hangir á efri hjörunum og skagar út í dyraopið. Myrkrið fyrir innan er myrkrið á milli stjarnanna. Myrkrið sem hefur reynt að troða sér inn í vitund mína, þrýst á skjáina. Ef ég fer inn þá rýf ég himnuna sem hefur aðskilið okkur. Punkturinn á kortinu er ekki bara hnit. Þetta er vendipunktur. Ef ég geng inn í myrkrið verður ekki aftur snúið.“

Iðunn vaknar alltaf þreytt á morgnana. Allir hafa ráð á reiðum höndum – læknirinn, sálfræðingurinn, vinkonurnar – en ekkert þeirra fær að heyra alla söguna. Hún segir engum frá leyndarmálunum sem hrannast upp og stigmagnast; frá földu hnífunum, læstu dyrunum, týndu köttunum; frá myrkrinu sem er ólíkt öllu öðru myrkri. Iðunn segir engum frá henni.

Myrkrið milli stjarnanna er martraðakennd samtímasaga sem dregur lesendur inn í myrkustu kima Reykjavíkur.

Umsagnir

„Dularfull og spennandi hryllingssaga sem skilur eftir ónotatilfinningu.“
Þorvaldur S. Helgason / Fréttablaðið

„[…] æsispennandi hrollvekja sem kallar fram tilfinningaleg og líkamleg viðbrögð hjá lesandanum.“
Ragnheiður Þrastardóttir/ Morgunblaðið

„… spennandi og nokkuð hrollvekjandi frásögn af því hvernig samsamaðar vitundir geta rekist á og valdið örlögum sem varða bæði líf og dauða, manna jafnt sem katta, og þótt ekki sé komin hér nein stórsaga upp á hundruð blaðsíðna þá er vel hægt að stytta sér stundir með snarpri og spennandi sögu um svefngengla og tvífara.“
Gauti Kristmannsson / Víðsjá

„Lesendur sem sækja í hrylling, furðu og spennu eiga sannarlega von á góðu.“
Guðrún Steinþórsdóttir / Skáld.is