LJÓNIÐ
Kría er að byrja í MR. Þar veit sem betur fer enginn um það sem gerðist á Akureyri og olli því að hún hefur ekki umgengist jafnaldra sína í marga mánuði. Nú fær hún tækifæri til að byrja upp á nýtt. Hún kynnist Elísabetu og þrátt fyrir strangt nám leikur menntaskólalífið við hana. En þegar Elísabet finnur gamalt skrín í földum skáp þá fara þær Kría að rannsaka undarlegt mál stúlku sem hvarf sporlaust árið 1938. Kría hittir líka hinn dularfulla Davíð sem kemur og fer eins og kötturinn. Og brátt kemur í ljós að hvarf stúlkunnar gæti haft óvænta tengingu við líf Kríu.
Ljónið er fyrsta bók í nýjum þríleik, spennandi saga sem gerist í Reykjavík samtímans en teygir sig aftur til ógnvekjandi atburða í fortíðinni.
Verðlaun og viðurkenningar
Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 2019
Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana í flokki ungmennabóka
Tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna 2018
Umsagnir
„Eftir fyrri bækur Hildar eru væntingarnar miklar þegar ný bók eftir hana kemur út. Ljónið stendur fyllilega undir þeim væntingum og er ákaflega vel skrifuð og útpæld. Söguþráðurinn er áhugaverður og spennan sem stigmagnast eftir því sem sögunni vindur fram gerir lesandanum erfitt fyrir að leggja bókina frá sér.“
María Bjarkadóttir / Bókmenntir.is
„[Það] svífur ákveðinn andi yfir bókinni sem ég myndi kalla töfrandi, heillandi. [...] Þó sagan sé að mestu raunsæ lýsing á menntaskólalífi í samtímanum, þá er einhver álagablær yfir henni. Þetta er góð bók til að lesa á náttfötunum á jóladag, með konfektskál innan handar og myrkur, snjókorn og jólaljós fyrir utan gluggann.“
Ragnhildur Hólmgeirsdóttir / Lestrarklefinn.is
„Sagan fléttast vel saman og gefur raunsanna mynd af heimi íslenskra unglinga en á sama tíma er ævintýraheimurinn og dulúðin ekki langt undan, ásamt undarlegu máli úr fortíðinni, sem tvinnast saman í æsispennandi frásögn og það er hægara sagt en gert að leggja frá sér bókina. [...] Hildur er á pari við allra bestu unglingabókahöfunda samtímans.“
Erla María Markúsdóttir / Morgunblaðið
„Ljónið [er] afskaplega vel skrifuð og heillandi bók. Einkum er draugagangi og yfirnáttúru gerð vel skil og kalt vatn aldrei langt frá skinni.“
Brynhildur Björnsdóttir / Fréttablaðið