HRÍM
Líf Jófríðar og annarra í skaranum hennar stjórnast af árstíðunum. Þau eyða sumrinu í Fellsskógi, haustinu á Húsavík og á veturna, þegar hrímsvelgirnir koma niður af hálendinu, þurfa þau að flýja út á ísinn á Mývatni. Hætturnar leynast við hvert fótmál en allt er samt í föstum skorðum – þar til líf Jófríðar umturnast. Hún þarf ekki bara að velja milli Suðra, myndarlega stráksins í Ljósavatnsskaranum, og æskuvinar síns, Bresa, heldur hvílir ábyrgðin á velferð skarans skyndilega á
hennar herðum.
Hrím er ævintýraleg þroskasaga um ástir og örlög á annars konar Íslandi þar sem mannfólk deilir landinu með risavöxnum dýrum og lífsbaráttan er hörð.
Verðlaun og viðurkenningar
Verðlaun bóksala 2023.
Tilnefning til Fjöruverðlaunanna – Bókmenntaverðlauna kvenna 2023 fyrir bestu bók í flokki barna- og unglingabóka..
Tilnefning til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2023 í flokki barna- og unglingabóka.
Umsagnir
„Hrím er fantasía sem gerist á kunnuglegu en þó framandi Íslandi og er saga um náttúruna, manneskjurnar, ástina og örlögin sem aldrei eru vís. Á hugvitsamlegan og næman hátt segir Hildur Knútsdóttir sögu Jófríðar, unglingsstúlku sem tekst á við áskoranir unglingsáranna ásamt því að þurfa að axla óbærilega þunga ábyrgð þegar framtíð fólksins hennar hvílir skyndilega á henni. Hrím er hörkuspennandi og stundum ógnvekjandi skáldsaga sem ómögulegt er að leggja frá sér.“
- Umsögn dómnefndar Fjöruverðlaunanna
„Vel skrifuð og heillandi þroskasaga sem fjallar um erfiða lífsbaráttu, hugrekki, ástina og trúna á sjálfan sig í heimi sem er svo nálægt okkur en samt svo fjarri. Höfundur býr til mjög trúverðugan hugarheim og tekst að halda lesandanum spenntum frá upphafi til enda.“
- Umsögn dómnefndar Íslensku bókmenntaverðlaunanna
„Hrím er metnaðarfull og hrífandi frásögn af lífi á köldu og harðneskjulegu Íslandi. Persónusköpunin er einkar sterk og þroskasaga aðalsöguhetjunnar er í kastljósinu.“
- Rebekka Sif Stefánsdóttir / Lestrarklefinn
„Það er mikilsvert fyrir íslenska bókmenntaflóru að eiga metnaðarfulla rithöfunda, líkt og Hildi Knútsdóttur, sem enn og aftur hefur sent frá sér frábæra ungmennabók.“
- Snædis Björnsdóttir / Morgunblaðið
„Góð og trúverðug heimssköpun er ein af frumforsendum góðrar fantasíu og í þessari bók tekst Hildi Knútsdóttur svo sannarlega að skapa eftirminnilegan heim.“
- Brynhildur Björnsdóttir / Heimildin
„Þarna er hún búin að skapa einhvern ótrúlegan heim úr þessu svæði. Örnefnin eru öll þarna: Skjálfandafljót, Húsavík, Mývatn og allt þetta en þetta er heimur byggður af hópum af fólki sem hegðar sér eins og amerískir sléttufrumbyggjar.“
- Þorgeir Tryggvason / Kiljan